Hoppa yfir valmynd

10. Heimildir ráðherra

Í 40. gr. stjórnarskrár Íslands, nr. 33/1944, segir að ekki megi selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum ríkisins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild. Enn fremur segir í 46. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál, að afla skuli heimilda í lögum til að kaupa, selja, skipta eða leigja til langs tíma fasteignir, skip og flugvélar, söfn og safnhluta sem hafa að geyma menningarverðmæti, eignarhluti ríkisins í félögum og aðrar eignir sem verðgildi hafa. Lagaheimildir til þessara ráðstafana eru venju samkvæmt veittar í 6. gr. fjárlaga að undangengnu samráði við þá ríkisaðila sem bera ábyrgð á þeim málaflokkum sem um ræðir.

Heimildum fjármála- og efnahagsráðherra er skipt í sjö flokka og eru þær alls 150 talsins. Heimildirnar skiptast þannig að tvær heimildir eru til eftirgjafar gjalda, 39 til sölu fasteigna, 30 til ráðstöfunar lóða, spildna og jarða, 27 til kaupa og leigu fasteigna, 17 til kaupa og sölu hlutabréfa og annarra ráðstafana vegna umsýslu félaga, sex til samningsgerðar um framkvæmdir, rekstur og afmörkuð verkefni og ýmsar heimildir eru 29 talsins. Í frumvarpinu er lagt til að fjárheimild vegna útgjalda sem kunna að falla til vegna heimildargreinarinnar nemi 307,7 m.kr. Ástæða er til að benda á að áætlað heildarumfang greinarinnar næmi hins vegar mun hærri fjárhæð væri ákveðið að nýta allar heimildir til fulls.

Heildarumfang áætlaðra söluheimilda sem koma fram í heimildargreininni er um 210 ma.kr. sem ná til hlutafélaga í eigu ríkisins ásamt fasteignum og jörðum. Þá er áætlað að heildarumfang vegna kaupa eða leigu gæti numið rúmlega 16 ma.kr. Þótt tiltekin heimild sé veitt vegna kaupa, sölu eða leigu þarf það ekki að fela í sér að sú heimild verði í raun nýtt á fjárlagaárinu. Hér er því aðeins verið setja fram upplýsingar um áætlað hámark á heildarumfangi heimildargreinarinnar.

Í fyrsta flokki er heimild fjármála- og efnahagsráðherra til að fella niður virðisaukaskatt af efniskostnaði og sérfræðiþjónustu sem keypt er fyrir styrktarfé vegna rannsóknar Hjarta­verndar á heilbrigði öldrunar. Í þessum flokki er einnig að finna heimild til að endurgreiða virðisaukaskatt af sérhæfðum íþróttabúnaði fyrir fatlaða íþróttamenn. Báðar heimildirnar eru óbreyttar frá fyrra ári.

Í öðrum flokki eru heimildir til sölu fasteigna. Flestar heimildirnar í þessum flokki eru til sölu á húsnæði sem er óhentugt eða nýtist ekki lengur í ríkisrekstrinum. Almennar heimildir eru í 2.1–2.4 sem ætlað er að veita svigrúm til að endurskipuleggja húsnæðismál stofnana og annarra ríkisaðila í tengslum við skipulagsbreytingar sem eiga sér stað í viðkomandi mála­flokkum. Aðrar heimildir eru til sölu á einstökum eignum, einkum á höfuðborgarsvæðinu, sem endurnýjaðar eru frá fyrra ári. Heimild 2.35 er ný þar sem lagt er til að ríkinu sé heimilt að taka við eignarhlut í húsnæði við Lágmúla sem ríkissjóður mun yfirtaka 1. janúar 2024 í samræmi við breytingar á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga. Samkvæmt breytingum á lögunum tekur ríkis­sjóður við fasteign, skrifstofubúnaði og innheimtu- og upplýsingakerfum í eigu Innheimtu­stofnunar sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að verkefni innheimtustofnunar verði færð til sýslumanna og er af þeim sökum ekki gert ráð fyrir að ríkið hafi þörf fyrir þetta húsnæði til langs tíma. Heimildir 2.39 og 2.40 varða áformaða ráðstöfun á tveimur fasteignum sem afsalað var til stofnana á vegum ríkisins á sínum tíma en nýtast ekki lengur undir starfsemi á þeirra vegum. Annars vegar er um að ræða Skólabæ við Suðurgötu sem afsalað var til Háskóla Íslands með gjafabréfi árið 1972. Í afsalinu kemur fram að eignin verði ævarandi eign Háskóla Íslands og að háskólanum sé óheimilt að láta hana af hendi. Skólabær er ríflega 400 fermetra einbýlishús sem nýtist ekki lengur undir starfsemi á vegum Háskóla Íslands. Af þeim sökum hefur háskólinn óskað eftir að kanna hvort hægt sé að selja eignina þrátt fyrir þinglýsta kvöð gegn því að nota andvirðið í þágu kennslu- og rannsóknarverkefna við háskólann. Hins vegar er um að ræða húseign við Bárugötu 3 sem afsalað var til Vísindasjóðs árið 1986 með skiptayfirlýsingu. Í afsalinu kemur fram að Vísindasjóður megi aldrei selja eða gefa eignina. Rannís tók við hlutverki Vísindasjóðs í samræmi við lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir nr. 3/2003. Húsnæðið við Bárugötu hefur ekki nýst undir starfsemi á vegum Rannís eða aðra vísindastarfsemi um langt skeið og þykir ekki hentugt undir slíka starfsemi. Heimild 2.42 varðar skrifstofuhúsnæði í eigu ríkisins við Grensásveg sem er til skoðunar að selja á almennum markaði að hluta eða öllu leyti. Komið er að endurbótaþörf á eigninni til að aðstaðan í húsnæðinu uppfylli nútímakröfur en tekin verður ákvörðun um ráðstöfun hennar að lokinni fýsileikakönnun. Heimild 2.43 tengist sameiningu á Skógræktinni og Landgræðslunni sem samþykkt var með lögum í júní 2023. Lagt er til að veitt verði heimild að selja eða leigja einstakar eignir sem ekki verður talin þörf á að nýta áfram undir sameinaða stofnun. Talsvert af húsnæði hefur verið í umsjón beggja stofnana víðs vegar um landið. Ráðast þarf í greiningu á því hvaða eignir verða áfram nýttar undir sameinaða stofnun og hvaða eignum væri hægt að ráðstafa undir aðra nýtingu eða selja á almennum markaði. Áætlað heildarumfang vegna sölu á fasteignum ríkisins samkvæmt heimildum í þessum flokki er um 30 ma.kr. Gert er ráð fyrir að sala á fasteignum fyrir tæplega 6 ma.kr. geti raungerst árið 2024 og munar þar mest um fyrirhugaða sölu á eignum ríkisins í Borgartúni.

Þriðji flokkurinn felur í sér heimildir til ráðstöfunar lóða, spildna og jarða. Heimildirnar eru margar óbreyttar frá fyrra ári og flestar til komnar vegna almennrar umsýslu ríkisjarða. Heimild 3.12 er endurnýjuð frá fyrra ári sem aflað var í tengslum við forkaupsréttarákvæði ríkisins sem er að finna í lögum um náttúruvernd. Breytingar voru gerðar á lögum um menningarminjar árið 2022 þar sem fram kemur að ríkissjóður skuli hafa forkaupsrétt að jörðum og öðrum landareignum þar sem friðlýstar menningarminjar eru. Vegna þessa eru gerðar breytingar á heimildinni frá fyrra ári og því bætt við að Jarðasjóði sé heimilt að kaupa jarðir eða jarðahluta vegna menningarminja auk náttúruverndarsjónarmiða og annarrar hagnýtingar sem þjónar almannahagsmunum. Heimildir 3.24–3.29 eru nýjar og varða hefðbundna umsýslu jarða þar sem þörf er á að ráðstafa jörðum eða húseignum í kjölfar þess að ábúð eða leigu er lokið. Ekki er talið að sérstakir almannahagsmunir séu að baki eignarhaldi ríkisins á þeim jörðum sem óskað er eftir söluheimild á sem krefjast þess að þær verði áfram í ríkiseigu. Hins vegar er miðað við að jarðirnar Grænanes, Syðri-Steinsmýri og Stakkahlíð verði áfram í eigu ríkisins þar sem almanna­hagsmunir eru taldir liggja að baki eignarhaldi á þeim jörðum. Þar sem ríkið sér ekki fram á að nýta húseignir á þeim jörðum undir opinbera starfsemi er óskað eftir heimild til að selja eða leigja þær með almennum hætti til að koma þeim í eðlilega nýtingu. Áætlað er að heildarumfang vegna sölu á lóðum, spildum og jörðum samkvæmt heimildum í þessum flokki geti numið rúmlega 3 ma.kr. Hins vegar er aðeins gert ráð fyrir að sala fyrir allt að 360 m.kr. geti raungerst árið 2024. Þá er áætlað að umfang vegna mögulegra kaupa á jörðum eða landi geti verið í kringum 80 m.kr. á næsta ári.

Í fjórða flokki eru heimildir til að kaupa og leigja fasteignir. Flestar þeirra eru óbreyttar frá fyrra ári og skýra sig að mestu sjálfar. Heimild 4.27 er ný og varðar yfirfærslu á eignarhaldi á Norræna húsinu við Sæmundargötu til ríkisins. Miðað er við að eigninni verði komið fyrir í umsýslu hjá Framkvæmdasýslu – Ríkiseignum sem muni tryggja að viðhaldi verði sinnt og áframhaldandi starfsemi geti verið í eigninni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar á grund­velli eðlilegra leigugreiðslna. Áætlað heildarumfang vegna kaupa á fasteignum á næsta ári gæti verið um 250 m.kr. Þá er áætlað að heildarumfang vegna leigu á fasteignum undir starfsemi ríkisins gæti verið um 16 ma.kr. sem miðast við núvirta samningsskuldbindingu til 25 ára. Af áætlaðri heildarskuldbindingu vegna leigu er miðað við að allt að 8 ma.kr. gætu raungerst á árinu 2024.

Í fimmta flokki er fjallað um heimildir til að kaupa og selja hlutabréf og aðrar sambærilegar ráðstafanir. Allar heimildir í þessum flokki eru endurnýjaðar frá fyrra ári. Áætlað heildar­umfang vegna sölu á hlutafélögum í eigu ríkisins samkvæmt heimildum í þessum flokki er um 180 ma.kr. miðað við hlutdeild í eigin fé og munar þar mest um eignarhlut ríkisins í fjármála­fyrirtækjum.

Í sjötta flokki eru heimildir vegna samninga um framkvæmdir, rekstur og afmörkuð verkefni á vegum ríkisins. Allar heimildir eru endurnýjaðar frá fyrra ári og eru til komnar sökum þess að talið er að fimm ára samningstími, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 40. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, sé of skammur þegar kemur að kaupum á þessari tilteknu þjónustu. Í samræmi við 2. mgr. 40. gr. laganna þarf heimild þingsins til að semja megi til lengri tíma en fimm ára enda eigi þau skilyrði við sem þar koma fram.

Í sjöunda flokki eru ýmsar heimildir sem nær allar eru óbreyttar frá fyrra ári. Í heimild 7.5 er til að heimildar verði aflað til að ganga til samninga við Vesturbyggð um að fjarlægja skólahúsnæði á skilgreindu hættusvæði í Bíldudal í stað þess að Ofanflóðasjóður ráðist í kostnaðarsamar framkvæmdir við að verja húsnæðið. Lög nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum heimila ekki greiðslur úr Ofanflóðasjóði til sveitarfélaga til að mæta kostnaði þeirra við að flytja starfsemi af hættusvæði og þá eftir atvikum til að kaupa eða byggja annars staðar en á hættusvæði eða ráðast í breytingar á húsnæði utan hættusvæða í stað þess að reisa varnargarð. Af þeim sökum er þörf á að afla sérstakrar heimildar til samnings­gerðarinnar við sveitarfélagið. Talið er að það muni leiða til hagkvæmari niðurstöðu bæði fyrir ríkið og sveitarfélagið að ná samkomulagi um að starfseminni verði fundinn nýr staður utan hættusvæðis. Heimild 7.27 varðar tilfærslu milli fasteigna í eignasafni ríkisins. Í samræmi við lög um opinber fjármál er miðað við að framkvæmd húsnæðismála verði samræmd á vegum ríkisins til að tryggja faglega, örugga og hagkvæma umsýslu eigna. Unnið hefur verið að því að færa allar eignir ríkisins í miðlæga umsýslu ásamt því að auka fjárhagslegt gagnsæi við rekstur þeirra. Almennt er miðað við að flestar fasteignir í eigu ríkisins verði í umsýslu hjá Framkvæmdasýslu – Ríkiseignum sem er sérhæfður og miðlægur eignaumsýsluaðili á vegum ríkisins. Þá hefur sérstöku eignasafni verið komið á fót utan um fasteignir Háskóla Íslands og unnið er að því að koma sambærilegu fyrirkomulagi á laggirnar utan um fasteignir Land­spítalans og annarrar sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu. Til að einfalda eignfærslu og aðra bókhaldslega meðferð þessara eigna og tilfærslu milli einstakra eignasafna innan A-hluta ríkis­sjóðs er lagt til að heimild sé til staðar til að færa einstakar eignir á milli safnanna með láni eða eigin fé enda hafi það ekki áhrif á heildarafkomu ríkissjóðs. Heimild 7.29 varðar áform um slit á ÍL-sjóði. Fyrirhugað er að leggja fram sérstakt frumvarp á komandi haustþingi um slit á sjóðnum. Í ljósi þeirra áforma er lagt til að sérstakrar heimildar verði aflað sem heimili skipti á eignum í tengslum við það uppgjör ásamt heimildar til að gera upp fyrirliggjandi ríkisábyrgð á skuldum sjóðsins. Heimildin felur annars vegar í sér að ráðherra geti gengið til skipta við ÍL-sjóð á eignum í því skyni að liðka fyrir uppgjöri á ÍL-sjóði ef af fyrirhuguðum slitum sjóðsins verður. Eignir sjóðsins eru sumar hverjar þess eðlis að erfitt getur verið að koma þeim í verð eða skipta þeim á milli kröfuhafa innan tilhlýðilegra tímamarka. Ráðstöfunin mun ekki fela í sér beinan ábata, hvorki fyrir ÍL-sjóð né ríkissjóð. Hins vegar felur heimildin í sér að unnt er að standa við ríkisábyrgð á skuldum ÍL-sjóðs. Ef fyrirhugað frumvarp verður að lögum getur komið til uppgjörs á ríkisábyrgðinni fyrr en ella. Heimild 7.30 varðar áform um byggingu Ölfusárbrúar. Að undangengnu samráði við innviðaráðuneytið er óskað eftir heimild til að ríkissjóður undirgangist skuldbindingar vegna útboðs á Ölfusárbrú. Samkvæmt lögum um samvinnuverkefni nr. 80/2020 er Vegagerðinni heimilt að bjóða út tilteknar framkvæmdir og ganga til samninga við einkaaðila um framkvæmd og fjármögnun einstakra verkefna. Til að verkefni geti talist samvinnuverkefni samkvæmt skilyrðum laganna þarf „einkaaðili að annast fjármögnun opinbers mannvirkis, í heild eða að hluta, eða að taka með öðrum hætti áhættu af gerð og rekstri þess, eftir atvikum með heimild til gjaldtöku fyrir notkun mannvirkisins á rekstrartíma“. Miðað við núverandi stöðu uppfyllir verkefnið um Ölfusárbrú uppfyllir ekki skilyrði laganna. Þótt framkvæmdin verði af þeim sökum ekki unnin á grundvelli laga um samvinnuverkefni til að byrja með er miðað við að gjaldtaka fyrir akstur um brúna standi undir kostnaði við fjármögnun, framkvæmd og rekstur. Á þeim grundvelli er lagt til að ríkissjóður geti gengist undir ábyrgð vegna þeirra skuldbindinga sem af verkefninu leiða. Útboðsferli vegna framkvæmdarinnar er hafið og er gert ráð fyrir að hægt verði að ljúka samningum í byrjun árs 2024. Samkvæmt áætlun Vegagerðarinnar er heildarkostnaður verkefnisins áætlaður um 15,3 ma.kr. sem dreifist yfir þriggja ára framkvæmdatímabil. Áætlað er að innheimta veggjalda geti hafist árið 2027 og gerir Vegagerðin ráð fyrir að það taki um 30 ár fyrir fjárfestinguna að standa undir sér með greiðslu veggjalda. Fyrirkomulag útboðs verður með þeim hætti að framkvæmdaraðilum verður ætlað að skila inn tvenns konar tilboðum, þ.e. með fjármögnun á framkvæmdatíma og án fjármögnunar. Þegar tilboð liggja fyrir verður tekin ákvörðun um hvort framkvæmdaaðili beri ábyrgð á fjármögnun eða hvort hagfelldara sé fyrir ríkið að annast fjármögnunina á framkvæmdatíma að hluta eða öllu leyti, en í því tilviki yrði viðeigandi heimilda aflað í fjárlögum. Verkefnið er metið fjárhagslega sjálfbært miðað við núverandi forsendur Vegagerðarinnar og gert ráð fyrir að gjaldtaka verði hafin fyrir akstur um brúna sem standi undir heildarkostnaði. Leggja þarf endanlegt mat lagt á fjárhagslega sjálfbærni verkefnisins sem staðfest er af fjármálaráðuneytinu þegar endanlegar forsendur liggja fyrir með lögbundinni aðkomu og að fenginni umsögn Ríkisábyrgðarsjóðs, sbr. lög nr. 121/1997, að teknu tilliti til sérstöðu verkefnisins sem felst í því að ekki er um ábyrgðarþega utan A-hluta fjárlaga að ræða. Að framkvæmdum loknum, þ.e. við verkskil á fullbúnu mannvirki, kemur til ákvarðana um fjármögnun verkefnisins til lengri tíma samhliða uppgjöri við framkvæmdaraðila. Þá mun liggja fyrir hvernig rekstri og umsjón mannvirkisins verður háttað m.a. með vísan til laga um samvinnuverkefni nr. 80/2020, og hvernig staðið verði að innheimtu veggjalda fyrir akstur yfir brúna. Miðað er við að útboð fari fram á haustmánuðum 2023 og tilboð opnuð í ársbyrjun 2024 en að endanlegir samningar við bjóðendur verði ekki undirritaðir fyrr en að fjárlögum 2024 samþykktum og fenginni þeirri heimild sem hér er óskað eftir. Í ljósi þess að ekki er hægt að færa áhættuna af fjárfestingunni alfarið yfir á framkvæmda- og rekstraraðila mun framkvæmdin verða flokkuð innan A-hluta þó að veggjöld eiga að standa undir afborgunum af heildarkostnaði. Metin arðsemi framkvæmdarinnar af hálfu Vegagerðarinnar er áætluð 7% yfir 30 ára tímabil. Framkvæmdin mun hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs í heild skv. GFS uppgjöri Hagstofu Íslands. Hagskýrslustaðlar GFS og reikningsskilastaðlar IPSAS gera þá kröfu að verkefnið verði fært hjá ríkissjóði með tilsvarandi áhrifum á afkomu, eignir og skuldir.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum